Sumarstarfsmenn

Á hverju sumri kemur ungt fólk til starfa í kirkjugarðinum og verkefnin eru sannarlega mörg og fjölbreytt því garðurinn er stór. Í fyrrasumar störfuðu alls 12 í kirkjugarðinum. Mætti því segja að heilmikið líf sé í garðinum á þessum árstíma, því auk starfsfólksins eru Hafnfirðingar og aðrir mjög duglegir að dytta að leiðum ástvina sinna víða á afar snyrtilegan og fallegan hátt.

Hver vinnudagur hefst klukkan hálf átta að morgni með mætingu og svo er unnið frá 8 til 17. Jóhanna Arnórsdóttir er verkefnastjóri og að hennar sögn er unga fólkið duglegt og vandvirkt.Einn þeirra, Jón Arnór Styrmisson, sem er fæddur 2003 og sumarið 2020 var fjórða sumar hans hjá kirkjugarðinum. „Þetta er mjög góð vinna, mikil rútína og allt vel skipulagt,“ segir Jón Arnór og aðspurður bætir hann við að skemmtilegast sé að tyrfa yfir leiði og að hann hugsi lítið út í að fyrir neðan sé jarðsett fólk. „Ég er að bara að sinna starfinu mínu. Það er tyrft tvisvar á sumrin, stundum oftar. Það er svo gaman að sjá hvað allt verður fallegra og snyrtilegra að dagsverki loknu.“ Hann á þar ekki einungis við tyrfinguna, heldur einnig allt annað sem gert er í garðinum til að halda honum fallegum.