Saga garðsins

Fjótlega eftir aldamótin 1900 náðist sátt um að dagsláttu spilda uppi á Öldum yrði sameiginlegur grafreitur Hafnfirðinga, en fram að því voru þeir jarðsettir í Görðum.

Kirkjurnar í Hafnarfirði voru þá tvær, Þjóðkirkjan og Fríkirkjan, en hvergi rými fyrir grafreiti. Garðurinn var gerður samkvæmt fyrirmælum biskups og í samræmi við reglugerð um kirkjugarða frá 16. ágúst 1902. Framkvæmdir gengu vel og var kirkjugarðurinn vígður 3. mars 1921 að viðstöddu fjölmenni. Séra Árni Björnsson prófastur flutti vígsluræðuna og lík Einars Jóhannessonar Hansen var jarðsett. Hann telst því vera vökumaður garðsins. Þjóðtrúin segir að sá sem er fyrst grafinn í kirkjugarði eigi að vaka yfir garðinum og taka á móti þeim sem eru greftraðir þar á eftir honum.

Á landsvísu telst Kirkjugarður Hafnarfjarðar ungur, en á 100 árum hefur hann margfaldast að stærð, eftir þónokkrar stækkanir og uppfyllingar til þess. Hann er 10 hektarar beggja vegna Kaldárselsvegar með um 10 þúsund grafarstæðum og 1.950 duftreitum. Um aldamótin 2000 þótti fyrirsjáanlegt að kirkjugarðslandið yrði fullnýtt árið 2045 eða þremur áratugum fyrr en spáð hafði verið 20 árum fyrr. Í dag er hins vegar talið að stæðin verði fullnýtt eða frátekin um 2035. Aukin fjölgun jarðsetningar duftkerja á undanförnum árum hefur aðeins haft áhrif á þá þróun, en þau eru 40% grafreita. Garðinum er nú skipt í grafarsvæði merkt A til Y og svæðið norðan Kaldárselsvegar var tekið í notkun 2016.


Þróun svæðis og aðbúnaðar

Fyrir 100 árum voru Öldur óraskaðar með rofabörðum undir Mosahlíðinni. Þurri grasbalinn þar eða moldarbarð þótti ákjósanlegt grafreitsstæði. Lagður var vegur frá Lækjargötu upp að kirkjugarðinum sama sumar og hann var vígður. Hann fékk síðar nafnið Öldugata. Garðurinn var umgirtur með tréstólpum, langböndum og vírneti og sáluhlið og klukknaport með koparklukku voru við inngang. Vatnsleiðsla og steinsteypt girðing komu á 4. og 5. áratugnum, sem og þjónustuhús og garðurinn varð fullfrágenginn, sléttaður og gangstígar lagðir.

Hlutverk og skyldur skv. lögum


Árið 1932 voru sett ný lög um eignarhald kirkjugarða, ábyrgð og umsjónarskyldur sóknarnefnda og sveitarfélaga. Hver garður varð sjálfseignarstofnun í umsjón og ábyrgð safnaða. Sveitarfélög leggja til svæði og flest sem lýtur að umbúnaði og umhirðu. Sóknarmönnum var þá m.a. skylt að reisa verkamannaskýli sem yrði greitt fyrir úr kirkjugarðssjóði. Þessi löggjöf hafði mótandi áhrif á þróun garðsins næstu áratugi og síðar kveðið enn skýrar á um gerð legstaðarskrár, auðkenni leiða og ákvæði um líkbrennslu og greftrun duftkera. Sérstakri kirkjugarðsstjórn var frá 1930 falið að ráða kirkjugarðsvörð og hafa einungis fjórir sinnt því hlutverki síðan. 32 einstaklingar hafa átt sæti í kirkjugarðsstjórn og sex verið formenn.

Árið 1996 var lögum breytt á jafnréttisgrundvelli til að koma í veg fyrir einokun tengda útfararþjónustu og kirkjugarðar máttu ekki lengur reka slíkar. Áður var útfararþjónusta niðurgreidd með kirkjugarðsgjöldum en eftir lagabreytinguna voru kirkjugarðarnir og útfararþjónusta aðskilin. Kirkjugarður Hafnarfjarðar eiga í góðu og mikilvægu samstarfi við fjölmargar útfararþjónustur. Vinnu við að færa handskrifaða legstaðaskrá kirkjugarðsins á tölvutækt form lauk vorið 2001 og gerð aðgengileg almenningi á heimasíðu Kirkjugarðasamands Íslands, www.gardur.is. Þúsundir ástvina þeirra sem hvíla í garðinum sækja hann allan ársins hring til að dytta að leiðum eða eiga þar kyrrðarstund, auk annarra gesta sem einnig sækja í kyrrðina, gróðursældina og hlýjuna sem einkenna þennan fallega kirkjugarð.